Valur

valur

Valur Sæmundsson skipaði sjötta sæti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Valur er fæddur og uppalinn Akureyringur, nýorðinn fimmtugur. Hann hefur m.a. starfað við skrifstofustörf, blaðamennsku, prófarkalestur og þýðingar, lauk síðan B.Sc prófi í tölvunarfræðum frá HÍ og kennsluréttindanámi frá HA og starfar nú sem stærðfræðikennari í MA og hjá upplýsingatæknideild Sjúkrahússins á Akureyri.

Valur drakk snemma í sig hugsjónir jöfnuðar og réttlætis, gerðist áskrifandi að Þjóðviljanum á unglingsaldri og fylgdi Alþýðubandalaginu að málum. Hann hefur verið félagi í VG frá upphafi og setið í velferðarráði (áður félagsmálaráði) Akureyrarbæjar fyrir hönd VG síðustu sex árin. Grunngildi VG, femínismi og áhersla á umhverfismál og náttúruvernd, falla vel að lífsskoðunum Vals og hann vill ótrauður halda baráttunni áfram.

„Baráttan fyrir réttlátu samfélagi þar sem enginn verður útundan tekur aldrei enda. Þótt það ríki góðæri þá megum við ekki gleyma því að það hafa  ekki allir sömu tækifæri til að njóta þess. Allir eiga rétt á því að lifa með reisn, óháð þjóðfélagsstöðu, og við þurfum að vinna að því að skapa samfélag þar sem það er mögulegt. Ég legg mikla áherslu á að rödd allra fái að heyrast og á þær raddir þurfi að hlusta. Pólitíkusar eiga ekki að ákveða fyrir aðra hvað þeim sé fyrir bestu!

Ég hef líka mikinn áhuga á skólamálum og skipulagsmálum, að ógleymdri upplýsingatækni sem ég vill efla mikið og tel lykilatriði til umbóta á mörgum sviðum í rekstri bæjarfélagsins. Tæknin getur auðveldað svo ótrúlega margt og beinlínis sparað fé í leiðinni. Ekki síst í velferðarmálum. En einnig er nauðsynlegt að auka aðgengi hins almenna bæjarbúa að upplýsingum um málefni bæjarins og einfalda boðleiðir í samskiptum bæjarbúa og bæjarfélagsins.“

Gens una sumus.