Sigmundur

sigmundur

Sigmundur Sigfússon skipar 17. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Sigmundur er giftur ellilífeyrisþegi á Akureyri. Hann á fjóra fullorðna syni úr fyrra hjónabandi og eina stjúpdóttur úr hinu síðara og er afi og stjúpafi átta barnabarna. Hann er ættaður úr Hörgárdal og Hróarstungu og ólst upp í kennarafjölskyldu í Reykjavík ásamt tveim bræðrum.

Á barnaskólaárum var Sigmundur í átta sumur við sveitastörf hjá ættingjum í Skagafirði og frá 16 ára aldri 5 sumur í verkamannavinnu í Reykjavík og víðar. Hann lauk embættisprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands vorið 1972 og stundaði framhaldsnám í geðlækningum í Osló 1974-78. Sigmundur starfaði sem aðstoðarlandlæknir á árunum 1978-1980. Hann var geðlæknir á Landspítala 1980-84 og yfirlæknir geðlækninga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri frá1984 til 2015.

„Af eftirminnilegum verkefnum sem ég hef unnið í akureyrsku samfélagi vil ég nefna forvarnarverkefnið Nýja barnið sem ég tók þátt í frá árinu 1988 með starfsfólki Heilsugæslustöðvarinnar á Akureyri. Einnig tók ég þátt, fyrir hönd sjúkrahússins, í almannaheillanefnd Akureyrarbæjar sem stofnuð var eftir fjármálahrunið 2008.

Helstu áhugamál  mín innan fagsins eru:

  • Fjölbreytt meðferðarúrræði og þjónusta fyrir sjúklinga
  • Góð stjórn og samvinna allra meðferðarstétta, ennfremur aukin fagleg þjálfun og menntun þeirra
  • Réttindi sjúklinga til lífsgæða, afkomu, húsnæðis og menntunar
  • Efnahagslegt og tilfinningalegt öryggi barna, jafnvel frá því að þau eru í móðurkviði
  • Leita sífellt leiða til að draga úr notkun áfengis, tóbaks og annarra fíkniefna
  • Beita viðurkenndum aðferðum til að milda andleg sár fólks eftir áföll og draga þannig úr langvarandi vanlíðan og skerðingu á lífsgæðum.

Önnur áhugamál mín eru t.d. saga mannkyns og tónlist. Ég var félagi í Passíukórnum á Akureyri 1984-1996 og starfa nú í Kammerkórnum Hymnodiu.

Ég hef alltaf haft áhuga á samfélagslegum málefnum og viljað sem mesta samvinnu og samhjálp í þjóðfélagi okkar. Ég tel það skyldu okkar sem búum á Íslandi að allir íbúarnir komist vel af, njóti góðrar heilbrigðisþjónustu og þeirrar menntunar sem hugur þeirra stendur til. Ég tel óviðunandi að enn dugi dagvinnutekjur fólks ekki því til framfærslu, viðunandi næringu, húsaskjóls og menntunar barna þess. Sama á við um greiðslur tll lífeyrisþega og bætur til  atvinnulausra. Náttúra landsins og nýting auðlinda þess eiga að gagnast öllum íbúunum jafnt.

Eftir að um fór að hægjast í læknisstörfum mínum fyrir rúmlega einum áratug síðan hef ég getað sameinast skoðanasystkinum mínum í Vinstri hreyfingunni grænu framboði og lagt þar lóð á vogarskálar, m.a. á sviði félagsmála, heilbrigðismála og menntamála. Með hjálp félaga minna þar hef ég líka bætt þekkingu mína og skilning á öðrum baráttumálum, t.d. á sviði umhverfismála og jafnréttismála.“