Stefnuskrá

Stefna Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á Akureyri

Sveitarstjórnarkosningar 2018

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er hreyfing framsýnna vinstrisinna, femínista og umhverfisverndarfólks sem vill tryggja jöfnuð í samfélaginu og vernd náttúru. Við leggjum áherslu á að sveitarfélög eru samfélög, en ekki fyrirtæki, og eiga að sjá til þess að allir geti notið jafnra tækifæra og þeirrar mikilvægu þjónustu sem fjármögnuð er úr sameiginlegum sjóðum. Sveitarfélögin eiga að axla ábyrgð á grunnþjónustunni en ekki fela einkaaðilum að annast hana.


Umhverfismál
Akureyri á áfram að vera í fararbroddi í flokkun sorps og taka forystu í umhverfismálum á Íslandi. Áhersla skal vera á að eyða allri mengun í okkar nánasta umhverfi

 • Gerum Akureyri að sjálfbæru og umhverfisvænu samfélagi og fáum vottanir sem slíkt
 • Náum kolefnishlutleysi árið 2040
 • Gerum vistgerðarkort fyrir Akureyri
 • Gerum umhverfisvísa, sem hægt er að mæla stöðugt og vöktum þær mælingar
 • Minnkum svifryk með betri gatnahreinsun, þróun í hálkuvörnum og fækkun nagladekkja
 • Aukum flokkun og skyldum fyrirtæki til að flokka úrgang
 • Drögum úr sóun og að minnkum plastnotkun með öllum ráðum
 • Plöntum runnum, trjám og öðrum sjálfbærum gróðri í meira mæli til fegrunar og betri loftgæða
 • Bætum aðgengi og aðbúnað á grænum svæðum og gönguleiðum
 • Bjóðum íbúum að planta í græna treflinum til kolefnisjöfnunar heimila
 • Bjóðum íbúum að taka græn svæði í fóstur


Barnafjölskyldur
Ekkert barn á að alast upp við fátækt. Hvert samfélag sem hlúir vel að börnum og fjölskyldum þeirra er gott samfélag. Að hlúa að hverju barni er fjárfesting til framtíðar. Því leggjum við höfuðáherslu á að samfélög séu barnvæn, þar sem öllum börnum eru tryggð þau réttindi sem þau eiga samkvæmt barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og að þeim sé ekki mismunað vegna stöðu þeirra, uppruna eða bakgrunns

 • Tökum mið af ákvæðum barnasáttmála SÞ við alla stefnumótun og ákvarðanatöku
 • Tryggjum aðgengi að leikskóla strax að loknu fæðingarorlofi, samhliða lengingu fæðingarorlofs í a.m.k 12 mánuði.
 • Stofnum til sérstakrar stöðu fulltrúa sem gætir hagsmuna barna


Jafnréttismál
Sveitarstjórnum ber að tryggja jafnrétti kynja og jafnræði allra íbúa. Sveitarfélögum ber að sporna gegn kynbundnu ofbeldi, klámvæðingu, mansali og vændi og vinna gegn skaðlegum áhrifum staðalmynda

 • Upprætum margþætta mismunun og kynbundinn launamun
 • Stuðlum að auknum jöfnuði kynja þegar kemur að náms- og starfsvali
 • Jöfnum aðgengi að fjármagni og ákvarðanatöku, t.d. með kynjaðri fjárhagsáætlunargerð og þátttökulýðræði
 • Tryggjum jafnréttis- og hinseginfræðslu auk forvarnafræðslu um kynbundið ofbeldi í öllu skóla- og uppeldisstarfi ásamt því að veita slíka fræðslu starfsfólki og íbúum sveitarfélagsins
 • Aukum stöðugildi jafnréttisfulltrúa


Menntamál
Skólar eru hornsteinn jöfnuðar í samfélaginu. Við viljum eiga samstarf og samtal við starfsfólk og kennara leik- og grunnskóla um hvernig sveitarfélagið geti stutt við skólastarf sem best

 • Gerum leik – og grunnskólamenntun, frístundastarf og skólamáltíðir endurgjaldslausar í áföngum
 • Aukum stuðningsþjónustu við börn í leik-og grunnskóla, ekki síst við börn með annað móðurmál en íslensku
 • Metum innleiðingu hugmyndafræðinnar um skóla án aðgreiningar og könnum hvort frekari stuðning vantar
 • Aukum jafnréttis- og kynfræðslu
 • Fækkum nemendum á hvern kennara bæði í grunn- og leikskólum í takti við óskir starfsfólks
 • Bætum starfsaðstöðu nemenda og annars starfsfólks í samráði við heimili og skóla


Lýðheilsa og forvarnir
Góð heilsa er það dýrmætasta sem hver manneskja á og sveitarfélög hafa bæði samfélagslegan og fjárhagslegan ávinning af því að styðja og hvetja íbúa til heilbrigðs lífs. Fræðsla og góðar fyrirmyndir eru öflugustu forvarnirnar

 • Leggjum áherslu á geðheilsurækt því sá hluti heilsueflingar hefur verið vanræktur of lengi
 • Eflum forvarnir gegn vímuefnaneyslu og bætum stuðning við vímuefnaneytendur og aðstandendur þeirra
 • Fylgjum ráðleggingum landlæknisembættisins við endurskoðun forvarnarstefnu Akureyrarbæjar
 • Stöndum vörð um starfsemi frjálsra félagasamtaka sem sinna þjónustu og stuðningi af fagmennsku. Styðjum við starfsemi þeirra á fjölbreyttan hátt og þökkum það ómælda sjálfboðna starf sem sinnt er af hugsjónafólki
 • Tengjum tómstundastarf barna betur við skólastarf og almenningssamgöngur
 • Bjóðum upp á skipulagða leiki á opnum svæðum bæjarins
 • Styttum vinnuvikuna með því að auka framboð hlutastarfa og innleiðum sveigjanlegan vinnutíma. Mikilvægt er að dagvinnulaun dugi vel til framfærslu
 • Atvinnuleitendur og eldri borgarar fái frítt í sund
 • Bjóðum starfsfólki Akureyrarbæjar að gera samgöngusamninga


Velferð
Réttlátt samfélag krefst velferðarkerfis sem virðir mannréttindi íbúanna og mætir þörfum þeirra á þeirra forsendum. Aðgengi allra til þátttöku í samfélaginu skal vera tryggt. Mikilvægt er að tryggja aðgengi íbúa að stefnumótun, ákvarðanatökum og þjónustu og hafa þannig valdeflingu, samráð og virðingu fyrir notendum þjónustunnar að leiðarljósi

 • Hjálpum fólki til sjálfshjálpar
 • Samþættum heimahjúkrun og heimaþjónustu og gerum þjónustuna notendastýrða og sveigjanlega
 • Fjölgum félagslegu húsnæði og gerum langtímaáætlun sem endurskoðuð er reglulega í takt við þróun leiguverðs á almennum markaði
 • Bjóðum sómasamleg og mannvinsamleg úrræði fyrir heimilislaust fólk innan íbúasvæða bæjarins
 • Tryggjum langveikum einstaklingum búsetuúrræði og skammtímaþjónustu
 • Tökum á móti hælisleitendum og tryggjum þjónustu við þá
 • Rekstur öldrunarheimila Akureyrar verði áfram í höndum bæjarins


Menning og listir
Aðstaða til að íbúar geti stundað menningu og listir glæðir sveitarfélögin lífi og gerir þau eftirsóknarverð til búsetu og heimsókna. Hugsa þarf listir og menningarstarf sem heild og auka stuðning við sköpun í grasrótinni og við sjálfsprottið starf

 • Miðum áherslur úthlutunarsjóða minna við markaðssetningu og gefum svigrúm til launagreiðslna til listafólks
 • Aukum kennslu og miðlun verk-og listgreina og sköpunar í skólastarfi
 • Eflum fjölbreytilegt nám og tómstundir tengdar listum og menningu fyrir alla aldurshópa enda getur sköpun verið góð leið til tengslamyndunar og geðheilsueflingar
 • Leggjum áherslu á skapandi störf í vinnuskóla og öðrum sumarstörfum á vegum bæjarins
 • Styðjum við uppbyggingu listnáms á háskólastigi
 • Gerum ráð fyrir að greiða listafólki fyrir afnot af listsköpun. Hægt væri að stofna sjóð til þess sem allar stofnanir gætu nýtt

Stjórnsýsla og lýðræði
Stjórnsýslan á fyrst og fremst að þjóna almenningi. Stöðugt þarf að hugsa um hvernig hægt er að gera betur og mikilvægt er að auka samtal og samráð

 • Greinum hagsmuni ólíkra hópa við undirbúning ákvarðana og gefum fólki fjölbreyttar leiðir til að koma skoðunum sínum og þörfum á framfæri
 • Gerum aðgengileg öll gögn og upplýsingar sem liggja til grundvallar ákvörðunum með upplýsandi og fjölbreyttum hætti nema lög krefjist leyndar
 • Innleiðum rafræna stjórnsýslu í sveitarfélögum


Skipulag og samgöngur
Skipulag þarf að vera á forsendum alhliða heilsueflingar, bæði líkamlegrar og andlegrar, auk þess að hámarka loftgæði. Samgöngukerfi bæjarins skal vera þróað og þjónustað til að styðja bíllausan lífstíl og hvetja til hreyfingar

 • Eflum og bætum almenningssamgöngur innan bæjar og til bæjarins í lofti, láði og legi
 • Útvíkkum og eflum strætókerfið og tryggjum aðgengi allra að því
 • Auðveldum börnum að nota strætó með því að hafa leiðbeinendur í vögnunum seinni part dags, þeim til aðstoðar
 • Bætum almenningssamgöngur við eyjabyggðir Akureyrar
 • Fylgjum eftir skipulagsstefnu um þéttingu byggðar
 • Förum í viðhaldsátak á gangstígum og hjólaleiðum ásamt því að klára tengingar á öllum leiðum
 • Ráðumst í löngu tímabæra byggingu samgöngumiðstöðvar miðsvæðis í bænum
 • Eflum Akureyrarflugvöll bæði sem varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll og sjálfstæðan millilandaflugvöll


Atvinna
Akureyrarbær er einn stærsti vinnustaður í sveitarfélaginu. Sem slíkum ber honum að vera í farabroddi er kemur að velferð og vellíðan starfsfólks. Umfram það að standa vel að eigin rekstri á bærinn að stuðla að frumkvöðladrifinni, fjölbreyttri, sjálfbærri og umhverfisvænni atvinnustarfsemi með samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi

 • Sköpum jákvæða hvata fyrir nýsköpun og verum vakandi fyrir vannýttum tækifærum og samlegð við stofnanir og fyrirtæki sem fyrir eru
 • Könnum fjölbreytta og umhverfisvæna orkuöflun á svæðinu til að knýja atvinnulíf bæjarins til framtíðar
 • Stuðlum að framgangi endurnýjunar núverandi byggðalínu Landsnets
 • Sveitarfélög og atvinnulíf taki höndum saman um betra samfélag fjölskyldum til heilla og styttri vinnuviku


Fjárfestingar og uppbygging
Mikilvægt er að setja þak á fjárfestingar sveitarfélagsins og áfangaskipta framkvæmdum ef þarf. Allri uppbyggingu og fjárfestingum þarf að stýra af fyrirhyggju og vandaðri áætlanagerð, þar sem áhersla er á ítarlega kostnaðargreiningu áður en til framkvæmda kemur

 • Miðum við einn milljarð króna á ári í framkvæmdir (á núvirði)
 • Leggjum áherslu á viðhald eigna og niðurgreiðslu skulda
 • Byggjum samgöngumiðstöð
 • Byggjum nauðsynleg mannvirki fyrir ólík skólastig í hverfunum
 • Byggjum göngu- og hjólastíga net um bæinn sem tengist nærliggjandi sveitarfélögum
 • Byggjum 50 metra keppnis- og skólasundlaug í Naustahverfi
 • Tryggjum byggingu bílastæðahúsa í miðbænum
 • Byggjum upp í takti við gildandi miðbæjarskipulag

Ef þú hefur spurningar til okkar máttu mjög gjarnan hafa samband í gegnum skilaboð á Facebooksíðunni okkar, með tölvupósti eða bara taka upp símann og hringja í oddvita framboðsins, Sóley Björk, í síma 844-1555