Hildur

hildur

Hildur Friðriksdóttir skipar 18. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Hildur er fertugur nútímafræðingur með viðbótardiplómu í menntunarfræðum. Hún starfar sem bókavörður og verkefnastjóri erlendra samskipta í Verkmenntaskólanum á Akureyri og nýtur því þeirra forréttinda að starfa daglega innan um ungt og kraftmikið fólk. Hildur er gift Snorra Björnssyni íslensku- og kynjafræðikennara í VMA og á tvær skemmtilegar táningsdætur, þær Þuru og Steingerði, sem æfa íþróttir af miklum móð. Sú yngri æfir fótbolta með Þór, en sú eldri æfir sund með Sundfélaginu Óðni.

„Mér þykir vænt um Akureyri og ég vil geta lagt mitt af mörkum til að móta hér mannvænlegt samfélag. Ég er mikill femínisti og ég hef jafnframt mikið óþol gagnvart öllu félagslegu óréttlæti. Einnig ber ég mikla virðingu fyrir nátturunni og finnst grátlegt hvernig á hana hefur verið gengið í þágu stóriðju. Ég hef því alla tíð fundið fyrir miklum samhljóm með hugmyndafræði VG og finnst mikilvægt að sú hugmyndafræði fái rödd og vægi þegar kemur að mótun nærumhverfis okkar. Í því samhengi er mikilvægt að leggja rækt við þá þætti sem marka Akureyri sérstöðu og gera bæinn að aðlaðandi og spennandi búsetukosti, s.s. blómlegt menningarlíf, öflugt skólastarf á öllum stigum og nálægð við náttúruna sem býður upp á fjölbreytta útivistarafþreyingu.

Ég hef verið virk í starfi flokksins um nokkurt skeið og undanfarin sex ár hef ég setið sem fulltrúi VG í stjórn Akureyrarstofu. Það hefur verið virkilega dýrmæt og skemmtileg reynsla. Ég hef einnig tekið virkan þátt í félagastörfum og hef m.a. setið í stjórn Sundfélagsins Óðins frá árinu 2014 en undanfarið ár hef ég gegnt þar formennsku.“