Gármann

garmann

Guðmundur Ármann Sigurjónsson skipar 21. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Guðmundur er myndlistarmaður fæddur árið 1944. Eiginkona hans er Hildur María Hansdóttir og eiga þau fimm börn og tíu barnabörn.

Guðmundur tók sveinspróf í prentmyndasmíði 1960, stundaði nám við málunardeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands árin 1962 – 1966 og lauk svo meistaranámi í grafík frá Listaháskólanum Valand í Gautaborg 1972. Hann hefur einnig lokið kennsluréttindum frá Háskólanum á Akureyri, 2004, og meistaranámi í kennslugrein myndlistar frá Háskólanum á Akureyri 2011.

„Ég hef kennt myndlist í fjörtíu ár. Á háskólastigi, framhaldsskólastigi og nokkur ár á grunnskólastigi. Ég hef haldið yfir 40 einkasýningar hér heima og erlendis, tekið þátt í fjölda samsýninga sömuleiðis hér heima og erlendis. Skipulagt og tekið þátt í allnokkrum alþjóðlegum verkefnum á sviði myndlistar.

Ég hef haft mikil afskipti af félagsmálum á sviði menningar og lista og er nú um stundir formaður Gilfélagsins sem heldur utan um starfsemi og sýningar í Deiglunni ásamt því að reka gestavinnustofu sem er mjög vel sótt af listamönnum frá öllum heimshornum sem koma hingað og auðga samfélagið okkar. Einnig er nú afar spennandi verkefni í vinnslu sem gengur út á að stofna og starfrækja grafíkverkstæði í Deiglunni.

Ég hef haldið fjölda námskeiða í grafík, málun og teikningu; staðið að nokkrum norrænum samstarsverkefnum á sviði myndlistar og flutt fjölda erindi og fyrirlestra um listfræði.“