Edward

eddi

Edward Hákon Huijbens skipar þriðja sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Hann hefur yfirgripsmikla reynslu af pólitískum störfum. Hann hefur verið varabæjarfulltrúi, varaþingmaður og síðast en ekki síst varaformaður Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs og er því okkar aðal-varamaður.

Edward er doktor í landfræði og starfar sem prófessor við Háskólann í Wageningen í Hollandi. Hann hefur setið í skipulagsráði og stjórn Norðurorku og á báðum stöðum beitt sér mjög fyrir umhverfismálum og náð árangri.

Gefum Edward orðið:
Ég hef tekið þátt í starfi hreyfingarinnar frá stofnun og þar áður í Alþýðubandalaginu og nú verið varamaður í bæjarstjórn í átta ár. Ég tel mig róttækan vinstrimanna og lít á umhverfisvernd, kvenfrelsi, jöfnuð og velferð aðalsmerki góðs samfélags. Öllum þarf að gera kleift að lifa með reisn og geta haft tækifæri til að rækta hæfileika sína óháð efnahagslegum, félagslegum, líkamlegum og/eða andlegum aðstæðum. Til þess þarf sterka sýn og öflugt sveitarfélag sem markvisst miðlar gæðum samfélagsins. Þar þurfa fulltrúar fólksins að stjórna, ekki embættismenn. Bærinn er samfélag – ekki fyrirtæki.

Forgangsmál eru að tryggja fjölbreytt búsetuúrræði, efla kerfi félagslegra íbúða og félagsþjónustu bæjarins og úrræðamöguleika hennar. Efla þarf völd kjörinna fulltrúa samhliða aðhaldi íbúa á þeim gegnum beint íbúalýðræði um málefni í nærumhverfi og eflingu hverfisnefnda. Í stað stórkarlalegra lausna í atvinnumálum þarf sýn sem byggir á styrkleikum okkar og krafti frumkvöðla í héraði. Öflug opinber þjónusta, kröftug iðnfyrirtæki og sterkir skólar á öllum stigum byggja á fólki sem þar vinnur og jöfn tækifæri skapa forsendur blómlegs frumkvöðlastarfs. Akureyri á að sýna forystu í að gera vel við fólk og tryggja jöfn tækifæri.

Hér er facebooksíða Edwards