Dilla

dilla

Dýrleif Skjóldal skipar 20. sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Hún er alltaf kölluð Dilla og er sennilega frægust fyrir að vera með Dillusundið í Glerárlaug en það eru sundæfingar fyrir yngstu börnin hjá Sundfélaginu Óðni. Hún hefur síðustu 10 ár verið leikskólakennari og meðal annars setið í stjórn Félags leikskólakennara.

„Ég starfa í Álfaborg/Valsárskóla sem er samrekinn leik- grunn- og tónlistarskóli sem skilgreinir sig sem leiðtogasamfélag. Þar „þróum við styrkleika nemenda þannig að þeir verði hæfari til að takast á við verkefni framtíðarinnar. Hugmyndin um leiðtogaþjálfun nemenda felst í að þjálfa nemendur í að finna eigin styrkleika og efla sjálfstraust þeirra og þrautsegju þannig að þeir geti talað fyrir hugmyndum sínum og gert þær að veruleika.“ eins og segir á heimasíðu okkar.

Ég er gift Rúnari Arasyni og við teljumst til frumbyggja Síðuhverfis enda höfum við búið í sömu íbúðinni síðan 1984. Við eigum 3 syni og með þeim 3 tengdadætur og 4 barnabörn sem eru sannkölluð ,,alheims-undur“. Megnið af mínu lífi hefur stjórnast af börnum bæði mínum eigin og annarra. Það er ástæðan fyrir að ég aðhyllist VG og stefnu þeirra. Sú sjálfbærni sem stefnan býður uppá sýnir best að við hugsum til framtíðar og berum hag komandi kynslóða fyrir brjósti. Að skila náttúrunni, helst í betra ástandi en mín kynslóð tók við henni, er mér kappsmál. Að kenna börnum að bera umhyggju fyrir náttúrunni og virða hana er og hefur verið leiðarstef í lífi mínu.
Ég hef gegnum árin setið í ýmsum stjórnum, nefndum og ráðum á vegum íþróttafélaga hér í bæ, FL, SSÍ og VG. Ég hef barist fyrir ýmsu, áorkað margt en ekki því að fá sæmandi aðstöðu fyrir keppendur í sundi hér í bæ og að Glerárlaug fái að vera opin án skerðinga á sumrin. Þar er því enn verk að vinna sem ég mun halda sérstaklega á lofti.“

Facebook síða Dillu