Ásrún

asrun

Ásrún Ýr Gestsdóttir er fulltrúi í frístundaráði fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð á Akureyri. Hún er 33 ára Hríseyingur sem villtist á brekkunni á leiðinni heim. Gift Svíanum Klas Rask sem starfar í Slippnum. Ásrún er  móðir Heimis Sigurpáls 13 ára, Önnu Violu 8 ára og Johans Jörundar 6 ára. Starfsreynsla Ásrúnar er víðfem. Hún hefur starfað við fiskvinnslu, bóksölu, afgreiðslu, gæslu, handverk, verið ráðskona og síðast en ekki síst leyst af á valtara!

Áhugamálin snúa að íþróttum, eldamennsku, bakstri, ferðalögum innanlands með fjölskyldunni og pólitík.

„Ég fór suður til Reykjavíkur í nám 15 ára. Nam listir við FB þar til ég tók pásu fra námi og fór aftur heim í Hrísey. Fór svo á Hvanneyri og útskrifaðist sem búfræðingur vorið 2008. Eftir búsetu á Raufarhöfn og Kópaskeri flutti ég svo til Akureyrar 2010 þar sem ég stundaði kjötiðnaðarnám þar til dóttir mín fæddist. Hún fékk hvergi inni hjá dagforeldri svo ég fékk mér kvöldvinnu við afgreiðslustörf hjá Strax Byggðavegi. Þegar yngri sonurinn fékk leikskólapláss hóf ég störf við umönnun á Hlíð. Einnig sinni ég hlutastarfi hjá Umhuga þar sem ég aðstoða við ýmis tilfallandi verkefni. Að vinna með öldruðum er gefandi, fræðandi og umfram allt skemmtileg vinna. Þeim málaflokk vil ég hlúa að; bæði hér á Akureyri, og svo legg ég áherslu á að aldraðir eyjabúar fái þjónustu heim svo þeir geti búið áfram í eyjunum sínum en þurfi ekki að yfirgefa heimili sín og jafnvel fjölskyldu mun fyrr en ella.
Ég vil sjá betur hlúð að ungum og öldnum. Dagvistunarmál verði leyst á farsælan máta. Aldraðir þurfi ekki að hafa áhyggjur af því hvað um þá verði eða að þeir séu byrði á fólkinu sínu.
Ég vil að jaðarbyggðir Akureyrar fái þá athygli og aðstoð sem þarf. Að ungt fólk sjái möguleika á góðu lífi hér á Akureyri og í eyjabyggðunum.“