Alfa

alfa

Alfa Dröfn Jóhannsdóttir skipaði níunda sæti á lista Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til bæjarstjórnakosninga á Akureyri 2018. Hún hefur setið í frístundaráði Akureyrarbæjar og áður íþróttaráði frá árinu 2015.

Alfa stundaði nám við Háskólann á Akureyri í félagsvísindum þar sem áherslan í grunnnáminu var á Norðurslóðafræði og þá sérstaklega á réttindi frumbyggja samhliða þróun velferðarríkja yfir í samkeppnisríki. Áhersla meistaranámsins var hinsvegar byggðafræði og þá sérstaklega verkaskipting kynjanna í smærri byggðalögum.

Á meðan á námi stóð sinnti hún stöðu fulltrúa nýnema FSHA við Háskólann ásamt því að vera fulltrúi nemenda í Jafnréttisráði. Alfa starfar sem sérfræðingur í félagsmálum barna ásamt því að vera verkefnastjóri innleiðingar Barnasáttmála Sameinuðu Þjóðanna hjá Akureyrarbæ. Hún hefur starfað með börnum og unglingum frá árinu 2007 með hléum, en þá starfaði hún sem ráðgjafi í Ungmennahúsinu í Rósenborg.

„Heimahjartað slær í Eyjafirði þar sem ræturnar liggja. Við höfum alla burði til að vera fyrirmyndar samfélag og ég vil styrkja þær grunnstoðir sem til þarf. Börn og ungmenni og réttindi þeirra eru bæði líf mitt og starf. Mér finnst mikilvægt að finna úrræði fyrir ungt fólk í vanda og mun beita mér sérstaklega fyrir því. Geðheilbrigðisúrræði fyrir ungt fólk, barnvænt sveitarfélag þar sem öllum börnum eru tryggð jöfn réttindi, aukin forvarnarfræðsla sem nær til yngri barna og jafnrétti kynjanna er mér efst í huga í stjórnmálum.

Við í Vinstri hreyfingunni Grænu framboði erum með skýra framtíðarsýn sem hugar að öllu því sem skiptir máli í sanngjörnu og umfram allt réttlátu samfélagi. Ég veit að ég er á réttum stað.“