Aðalfundur 2018

Aðalfundur Svæðisfélags á VG Akureyri og nágrenni 8. október 2018. Skýrsla stjórnar.

Fráfarandi stjórn félagsins var kjörin á aðalfundi félagsins að kvöldi 19. apríl 2017: formaður Ólafur   Kjartansson og meðstjórnendur Kristín Sigfúsdóttir, Sigmundur Sigfússon, Snæbjörn Ómar Guðjónsson og Ásrún Gestsdóttir. Varamenn í stjórn: Hermann Arason, Dýrleif Skjóldal og Anna María Hjálmarsdóttir. Á fyrsta fundi nýrrar stjórnar sama kvöld var verkum skipt þannig að Ásrún varð varaformaður félagsins, Kristín gjaldkeri, Sigmundur ritari og Snæbjörn meðstjórnandi. Á aðalfundinum voru samþykktar samhljóða ályktanir um heilbrigðismál og sjókvíaeldi. Björn Valur Gíslason varaformaður VG og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður VG voru gestir aðalfundarins. Fluttu þau ávörp og svöruðu spurningum um flokksstarfið og viðhorf í landsmálum.

Haldnir voru 16 stjórnarfundir á starfsárinu, 8 fyrir áramót og 8 eftir áramót. Almennir félagsfundir voru 7 talsins, 4 árið 2017 og 3 árið 2018. Vikulegir bæjarmálafundir með Sóleyju Björk Stefánsdóttur bæjarfulltrúa VG á Akureyri og fulltrúum VG í nefndum og ráðum bæjarins voru að jafnaði haldnir síðdegis á mánudögum, nema yfir blásumarið. Fyrir utan umræður og samþykktir um málefni bæjarfélagsins markaðist starfsárið mjög af undirbúningi óvæntra alþingiskosninga 28. október 2017 og undirbúningi reglulegra kosninga til sveitarstjórna 26. maí 2018.

Annáll um félagsstarfið :

(1) Hinn 1. maí 2017 var haldinn opinn fundur í Brekkugötu 7a um verkalýðsmál og kjaramál með forystumönnum stéttarfélaga, þeim Aðalsteini Baldurssyni Húsavík og Önnu Jakobínu Björnsdóttur Akureyri.

(2) Á stjórnarfundi 11. júní 2017 voru ákveðnar lagfæringar á húsnæði félagsins að Brekkugötu 7a, m.a. á raflögnum og málningu. Ennfremur ákveðið að uppfæra félagatalið.

(3) Á stjórnarfund 16. ágúst 2017 kom Sóley bæjarfulltrúi VG og upplýsti að hún hygðist síðdegis á miðvikudögum hafa opið hús í félagshúsnæðinu og ræða við gestkomandi. Ræddur var undirbúningur fyrir þátttöku félagsmanna á flokksráðsfundi VG í Borgarfirði hinn 19. ágúst og á landsfundi VG í Reykjavík 6.-8. október 2017.

(4) Almennur félagsfundur 12. september 2017. Kynnt var dagskrá landsfundar VG í Reykjavík 6.-8. október. Kynntar voru ályktunartillögur stjórnar, bæjarfulltrúa og varabæjarfulltrúa VG á Akureyri fyrir landsfundinn um (a) fjarfundabúnað í félagsstarfi VG (b) mengun frá skipum og umferð á hafsvæðum (c) bann við plastögnum í snyrti- og hreinlætisvörum og (d) geðheilbrigðis-þjónustu. Ennfremur kynntar óskir sömu aðila um dagskrárefni á landsfundinum : a) tekjuviðmið eldri borgara b) almenna raforkuflutninga – utan stóriðju c) samgöngur innanlands, vegi og flugsamgöngur. Kjörnir voru 26 fulltrúar frá svæðisfélaginu til setu á landsfundinum.

(5) Stjórnarfundur 24. september, sem hafði verið flýtt vegna þess að boðað hafði verið óvænt til alþingiskosninga 28. október. Gestir fundarins voru Sóley bæjarfulltrúi og Edward varabæjarfulltrúi. Rætt var um undirbúning aðalfundar Kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi í Mývatnssveit hinn 1. október og ráðgerðs aukafundar ráðsins á Akureyri hinn 9. október þar sem samþykkja skyldi framboðslista VG í kjördæminu fyrir alþingiskosningarnar. Edward formaður stjórnar kjördæmisráðsins upplýsti að allir stjórnarmenn hygðust taka endurkjöri á aðalfundi ráðsins. Ákveðið að félagar í svæðisfélaginu myndu ganga í hús á Akureyri til að kynna málefni og stefnu hreyfingarinnar. Ákveðið var að leggja teppi á gólf félagshúsnæðisins og setja dempandi plötur í loft til að bæta hljóðvist fyrir kosningavikuna og kosningavöku 28. október.

(6) Almennur félagsfundur 28. september 2017. Kjörnir voru 26 fulltrúar félagsins á aðalfund Kjördæmisráðs VG í Norðausturkjördæmi 1. október 2017. Auglýst eftir sjálfboðaliðum til að ganga í hús á Akureyri fyrir alþingiskosningarnar.

(7) Stjórnarfundur 5. nóvember 2017. Formaður fór yfir stöðuna í kjölfar alþingiskosninga. Undirbúningurinn hafði gengið vel. Húsnæði félagsins var lagfært og nýtt einkennismerki hreyfingarinnar fest á vegg utandyra. Kosningastarfið á félagsskrifstofunni gekk vel, 150 gestir rituðu nafn sitt í gestabókina og fleiri komu í spjall og þáðu kaffi og vöfflur. Gjaldkeri upplýsti að kostnaður svæðisfélagsins af kosningaundirbúningnum hefði nánast verið enginn. Stefnt var að því að halda almennan félagsfund í desember til að ræða stöðu VG, hvort sem hreyfingin yrði utan eða innan ríkisstjórnar. Í samráði við Sóleyju bæjarfulltrúa samþykkti stjórnin nýja varafulltrúa VG í velferðarráð og skólaráð Akureyrarbæjar.

(8) Stjórnarfundur 17. desember 2017. (a) Ákveðið að á almennum félagsfundi 19. desember myndi nýkjörinn varaformaður VG, Edward H. Huijbens, kynna félagsmönnum niðurstöður flokksráðsfundar VG 29. nóvember og stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar undir forsæti Katrínar Jakobsdóttur formanns VG. (b) Undirbúningur sveitarstjórnarkosninga í maí 2018. Ákveðið að nota helming fundartíma vikulegra bæjarmálafunda á mánudögum til undirbúnings kosninganna um vorið.

(9) Almennur félagsfundur 19. desember 2017. (a) Edward varaformaður VG kynnti störf nýrrar ríkisstjórnar og fyrirliggjandi frumvarp til fjárlaga. Hann svaraði spurningum fundarmanna og gagnrýni þeirra á fjárlagafrumvarpið. Fundarmenn virtust sammála um að úr því sem komið væri yrði mikilvægt fyrir VG að ríkisstjórnarmeirihlutinn héldi sem lengst, jafnvel út allt fjögurra ára kjörtímabilið. (b) Sóley bæjarfulltrúi reifaði bæjarmálin. Hún hvatti til umræðu um hvernig raða skyldi á lista VG fyrir sveitarstjórnarkosningarnar á Akureyri. Bæði hún og Edward sögðust vera meðmælt rafrænu prófkjöri/forvali. Sóley ítrekaði að hún byði sig fram aftur fyrir hreyfinguna. Hún hvatti til að fá sem fyrst áhugasama félaga til að undirbúa kosningabaráttuna.

(10) Stjórnarfundur 7. janúar 2018. (a) Umræður um undirbúning flokksráðsfundar VG 27. janúar. (b) Undirbúningur sveitarstjórnarkosninga. Samþykkt var að stjórnin myndi leggja fram tillögu á almennum félagsfundi um að kjósa 3ja manna uppstillingarnefnd og leggja línur um fyrirkomulag forvals. Stjórnarmenn hölluðust helst að lokuðu rafrænu forvali og að framboðsfresti yrði lokið tveim vikum fyrir forvalið. Frambjóðendur ættu svo kost á því að kynna sig á félagsfundi fyrir forvalið.

(11) Almennur félagsfundur 23. janúar 2018. Fundarmenn voru 14 talsins. Í uppstillingarnefnd / kjörnefnd voru kosin: Aðalmenn : Hildur Friðriksdóttir, Hlynur Hallsson, Valur Sæmundsson. Varamenn: Kristín Sigfúsdóttir og Sigmundur Sigfússon. Eftir nokkrar umræður samþykkti fundurinn mótatkvæðalaust að fara í uppstillingu á framboðslista án forvals. Í almennum umræðum kom fram að Sóley Stefánsdóttir sóttist eftir að vera aftur í fyrsta sæti framboðslistans og Edward Huijbens óskaði eftir 3. eða 4. sætinu. Fram komu óskir frá 7 öðrum nafngreindum félögum um að fá sæti einhvers staðar ofarlega á framboðslistanum. Minnt var á að ekki mætti halla á konur á framboðslistanum skv. lögum VG. Rætt var um æskilega dreifingu á listanum eftir aldri og búsetu. Nefnt var að tillögu uppstillingarnefndar um skipan framboðslista VG á Akureyri þyrfti að bera upp á félagsfundi ekki seinna en um mánaðamótin febrúar/mars. Sóley bæjarfulltrúi hóf síðan umræðu um helstu áhersluatriði VG í kosningabaráttunni.

(12) Almennur félagsfundur á Hótel KEA 6. mars 2018. Fundarefni : Uppstilling á framboðslista VG fyrir kosningar til bæjarstjórnar Akureyrarbæjar 26. maí 2018. Tillaga uppstillingarnefndar var kynnt og tekin til afgreiðslu. Skv. tillögu nefndarinnar skipuðu þessi 6 efstu sæti listans : 1. Sóley Björk Stefánsdóttir, 2. Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir, 3. Edward H. Huijbens, 4. Inga Elísabet Vésteinsdóttir, 5. Finnur Dúa Hjörleifsson, 6. Þuríður Sólveig Árnadóttir. Þau kynntu sig og málefni sín í stuttu máli fyrir fundarmönnum. Í fyrirspurnum og umræðum fundarmanna komu fram skiptar skoðanir um framboðslistann og vinnubrögð uppstillingarnefndarinnar. Í skriflegri leynilegri kosningu um framboðslistann meðal félagsmanna á fundinum var listinn svo samþykktur með 19 atkvæðum gegn 5.

(13) Stjórnarfundur 22. apríl 2018. Undirbúningur sveitarstjórnarkosninga 26. maí. Sú breyting var orðin á samþykktum framboðslista VG að frambjóðandinn í 4. sæti fékk að eigin ósk að færa sig í 11.sæti listans. Frambjóðendur í 5.-11. sæti færðust við þetta hver um sig upp um eitt sæti á listanum. Allir viðkomandi frambjóðendur höfðu samþykkt þessar breytingar. Valdir höfðu verið tveir ábyrgðarmenn framboðslistans. Skipuð hafði verið 5 manna kosningastjórn og kosningastjóri ráðin Ester Ósk Árnadóttir. Ákveðið var að opna kosningaskrifstofu hinn 1. maí að Brekkugötu 7a. Húsnæðið yrði enn lagfært af sjálfboðaliðum. Málefnastarf til grundvallar fyrir stefnuskrá framboðsins hafði farið fram. Rammi fjárhagsáætlunar vegna framboðsins var 2 milljónir króna. Kosningaskrifstofan skyldi verða opin gestum á kjördag. Opinn fundur með þingmönnum VG áætlaður þar hinn 12. maí.

(14) Almennur fundur með stjórn VG og alþingismönnum 12. maí 2018. Framsögumenn voru Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Steingrímur Sigfússon forseti alþingis og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir alþingismaður. Aðallega var fjallað um ástæður þess að VG fór í ríksstjórnarsamstarf með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki, árangur þess til bóta fyrir velferðarkerfið í landinu, kjör öryrkja og ellilífeyrisþega o.fl. Fundarmenn ásamt framsögumönnum voru 50-60 talsins þegar mest var.

(15) Stjórnarfundur 6. júní 2018 með Sóleyju Björk Stefánsdóttur nýkjörnum bæjarfulltrúa VG á Akureyri.

(a) Niðurstöður bæjarstjórnarkosninganna 26. maí voru þær að 7 flokkar buðu fram og náðu 6 þeirra kjörnum bæjarfulltrúum. Á kjörskrá á Akureyri voru13.702, talin atkvæði 9.083 og kjörsókn því 66,3%. Framboðslisti Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs hlaut 880 atkvæði (9.4%) og einn bæjarfulltrúa kjörinn, Sóleyju Björku Stefánsdóttur. Varabæjarfulltrúi hreyfingarinnar varð Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir og 2. varabæjarfulltrúi Edward H. Huijbens. Á bæjarmálafundum VG 28. maí og 4. júní var rýnt í stöðuna varðandi hugsanlegan meirihluta í bæjarstjórn. Á seinni fundinum var reyndar orðið nokkuð ljóst að fulltrúar þeirra þriggja flokka sem mynduðu síðasta meirihluta í bæjarstjórn stefndu að áframhaldandi samstarfi, sem svo varð.

(b) Val á fulltrúum VG í fastaráð og nefndir á vegum bæjarfélagsins : Bæjarráð, Frístundaráð, Fræðsluráð, Skipulagsráð, Stjórn Akureyrarstofu, Velferðarráð, Umhverfis- og mannvirkjaráð, Hafnasamlag Eyjafjarðar og Eyþing. Samkomuleg varð um skipan fulltrúa VG, þó með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á skipan í Skipulagsráð og Velferðarráð vegna óvissu um kynjahlutföll fulltrúa frá öðrum flokkum. Af sömu ástæðu var skipan varamanna VG í ráð og nefndir líka talin geta tekið breytingum fyrir fyrsta fund nýrrar bæjarstjórnar 12. júní 2018.

(c) Bæjarmálafundir VG á Akureyri. Fundartími ákveðinn áfram kl. 19-21 á mánudögum. Lögð var áhersla á skyldumætingu fulltrúa VG í ráðum og nefndum bæjarins á fundina, og að þau kæmu vel undirbúin til funda. Líka var lögð áhersla á að leitast við að hafa létt andrúmsloft á fundunum, einkum til að laða yngri félaga þangað.

(16) Stjórnarfundur 18. september 2018. Ákveðið var að halda aðalfund og kjósa nýja stjórn félagsins fyrir flokksráðsfund VG í Kópavogi 12.-13. október. Mánudagurinn 8. október var talinn verða heppilegur aðalfundardagur. Undirbúningur fundarins ræddur, ennfremur fyrirhuguð heimsókn þingmanna og ráðherra VG til Akureyrar 3. október í kjördæmaviku alþingis. Varaformaður upplýsti að hafinn væri undirbúningur stofnunar félags ungra vinstri grænna (UVG) á Akureyri, og fögnuðu stjórnarmenn þessu.

(17) (a) 3. október 2018. Stjórn ásamt 4 af 5 efstu fulltrúum á framboðslista VG á Akureyri héldu fund í Brekkukoti kl.16 með Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og aðstoðarkonum hennar. Fundurinn varði aðeins í 30 mínútur svo að ekki var unnt að ræða allt sem hugur fundarmanna stóð til. Ætlunin hafði verið að ræða mest um geðheilbrigðismál, en það breyttist eftir að ljóst var að heilbrigðismálaráðherra Svandís Svavarsdóttir væri farin aftur suður og kæmist því ekki. Ákveðið var að biðja Svandísi ráðherra um að koma síðar til Akureyrar og tala bæði á félagsfundi og opnum fundi um stjórnun heilbrigðismála og geðheilbrigðismál. (b) Opinn fundur á vegum VG í ketilhúsi Listasafnsins á Akureyri kl. 17-19. Framsögu höfðu Katrín forsætisráðherra og Guðmundur umhverfisráðherra. Þau ásamt alþingismönnunum Steingrími og Bjarkeyju svöruðu fyrirspurnum frá einum tugi fundarmanna. Fundarmenn voru um 50 þegar flest var.

(18) 7. október 2018. Síðasti fundur fráfarandi stjórnar Svæðisfélags VG á Akureyri og nágrenni 2017-2018.

(a) Aðalfundur félagsins daginn eftir undirbúinn í smáatriðum.

(b) Ákveðið var að finna áhugasaman félaga til að taka að sér að verða umsjónarmaður húsnæðisins að Brekkugötu 7a. Dýrleif Skjóldal hafði sinnt þessu hlutverki í árum saman og fannst henni tími til kominn að annar tæki við starfinu.

(c) Saga VG í 20 ár. Gjaldkeri og ritari höfðu hinn 2. október átt fundi með Pétri Árnasyni sagnfræðingi, sem ráðinn hefur verið til að rita tveggja áratuga sögu Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs til útgáfu á næsta ári. Að beiðni sagnfræðingsins fékk hann að lesa fundargerðarbækur svæðisfélagsins okkar til öflunar heimilda um starfið hér frá 2002. Þar sem ekki finnast neinar fundargerðir félagsins skráðar í bókunum frá því í júní 2002 til nóvember 2005, og fremur stopult eftir það fram í október 2009, var sagnfræðingnum ráðlagt að leita upplýsinga um félagsstarfið hjá fulltrúum VG í stjórn Akureyrarbæjar árin 2002-2009, auk upplýsinga um störf þeirra sjálfra í bæjarstjórninni.

8.október 2018
Sigmundur Sigfússon
ritari stjórnar svæðisfélags Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs á Akureyri og nágrenni

.